Vala handverksskóli vil einbeita sér að möguleikum hvers og eins og hvetja nemendur til nýrrar hugsunar og löngunar til að leysa vandamál og finna snjallar lausnir. VALA vill gefa nemendum tækifæri til að varðveita menningararfinn og læra gamalt handverk og aðferðir og á sama tíma gefa því nýjan innblástur með nútímalegum efnistökum og tækni.

Áætlun EMBLA

Andrastaðir - Heimili í Sveit

Skilgreining á þjónustu sem fyrirhuguð er á Andrastöðum á jörðinni Hólalandi eða Brautaholtsveg 63 á Kjalarnesi.Skilgreining á þjónustu sem fyrirhuguð er á Andrastöðum á jörðinni Hólalandi eða Brautaholtsveg 63 á Kjalarnesi.

Heimilið – skilgreining

Að byggja upp heimili fyrir 6 – 7 einstaklinga sem eiga við fjölþættan vanda að stríða, oft með þroskaskerðingar, hegðunar og fíkniefna vanda, einhverfu og skyldar raskanir og eiga í erfiðleikum með að fóta sig í samfélaginu. Við viljum skapa umhverfi og aðstæður þar sem hægt er að vinna með einstaklinginn út frá hans eigin forsendum og einblína á hans kosti, möguleika, áhugamál og framtíð. Með það að leiðarljósi er tekist á við vandamálin.

Einstaklingarnir

Þeir einstaklingar sem koma til með að búa á Andrastöðum verða á mismunandi aldri, eiga við ólík vandamál að stríða bæði hvað varðar skilgreindar fatlanir og vímuefni. Það sem þeir eiga sameiginlegt er að þeir eru að reyna byggja sig upp eftir að hafa orðið undir á ýmsum sviðum í þjóðfélaginu. Sumir koma til Andrastaða vegna þess að þeir eiga ekki í önnur hús að vernda, aðrir vegna þess að þeir vilja forðast skarkala borgarlífsins, meðan þeir eru að ná áttum enn aðrir vegna þess að þeir eru að koma úr meðferðum ýmiskonar. Allir sem búa á Andrastöðum þurfa aðstoð við að byggja sig upp andlega og líkamlega og þurfa hjálp við að fá vinnu eða fara í vinnuþjálfun, stunda nám... Þannig má gera ráð fyrir því að flestir sem koma til með að búa á Andrastöðum, búa þar tímabundið.

Markmið

Markmiðið er að efla sjálfsvitund, sjálfstæði og færni hvers einstaklings þannig að þeir verði drífandi og ráðandi um eigin hagi eins og kostur er. Til að ná þessum markmiðum skuldbindur félagið sig til þess að veita íbúum eins góða þjónustu og kostur er og ráða einungis starfsfólk sem hefur menntun eða reynslu til að mæta þjónustu, þörfum og óskum hvers íbúa.

Heimilið

Það er mikilvægt skapa öryggi og ró á sínu heimili. Heimilið á að vera griðastaður þar
sem gott er að hvílast og endurnýja kraftana. Að skapa góðar venjur, fara tímanlega að sofa og vakna úthvíldur, borða hollan og góðan mat er grunnur sem hægt er að byggja á. Það er mikilvægt fyrir einstaklinginn að finna það að ábyrgðin sem hann ber við að skapa sitt heimili er stór. Það að hann fái þjónustu þýðir ekki að honum sé þjónað, heldur að þjónustan sé alltaf í samræmi við getu og möguleika einstaklingsins og að hann fái aðstoð við að taka eigin ábyrgð.

Vinna og eða nám

Í gegnum vinnu og nám þá mætir einstaklingurinn lífinu eða heiminum og þar verður hann að taka tillit til aðstæðna sem hann hefur ekki skapað sjálfur nema að litlu leiti. Að finna lífinu tilgang, eiga sér samastað í samfélaginu og finna að einmitt ég er mikilvægur hlekkur í því samfélagi sem við byggjum er tilfinning sem er eftirsóknarverð fyrir okkur öll. Oft hafa þessir einstaklingar upplifað mikla höfnun. Það er mikilvægt að finna þá gleði yfir því að vera metin af verðleikum bæði í gegnum vinnu eða nám en ekki síst, sem manneskja. Vinnan eða skólinn á að byggja upp sjálfstraust, kunnáttu, reynslu og trú á framtíðina. Á heimilinu verður möguleiki til að sinna handverki og sinna dýrum s.s. hænsnum, hundum eða köttum og rækta grænmeti til heimilisneyslu. Húsdýrahald og ræktun yrði þó aldrei til annars en að þjóna uppeldislegum markmiðum og ávinningur af slíku starfi kemur heimilisfólki eingöngu til góða.

Tómstundir

Tómstundir eru oft samnefnari fyrir það besta í lífinu. Við gerum eitthvað vegna þess að okkur finnst það skemmtilegt, það veitir okkur gleði og ánægju. Það er mikilvægt fyrir hvern einstakling að finna þessa uppsprettu og hafa möguleika til að virkja hana. Oft þarf ekki mikið til. Að fara í göngutúr þar sem hægt er að hugsa eða tala um það sem manni liggur á hjarta er ágætis dæmi. Við leggjum mikið upp úr að gefa möguleika til að sinna sínum áhugamálum og má nefna reiðmennsku, sundferðir, skoðunarferðir, bíóferðir, ferðalög og ýmislegt annað því til stuðnings.

Ábyrgð og rekstur

Heimilið skal í einu og öllu vera rekið samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem eru í gildi hverju sinni. Félagið ber alla ábyrgð á starfsemi heimilisins bæði hvað varðar uppeldisleg markmið, húsnæði eða viðhaldi á fasteignum. Félagið ræður forstöðukonu/mann sem skal bera ábyrgð á starfsmannahaldi, innra starfi heimilisins, samskiptum og samstarfi við aðstandendur, vinnustaði, skóla og svo framvegis. Forstöðukona/maður ber einnig ábyrgð á daglegum fjárreiðum íbúa sem ekki geta annast þær sjálfir og almennri velferð íbúanna.

Rekstur heimilisins verður tryggður gegnum samninga við sveitarfélög þar sem viðkomandi íbúar eiga lögheimili.

Eftirlit.

Eftirlit með rekstri heimilisins verður skilgreint sérstaklega í samningum við viðkomandi sveitarfélög.

 

© 2021, Thoridan AB